Menningarlíf er í miklum blóma á Tröllaskaganum. Um það vitna hinar fjölmörgu hátíðir, gallerí, söfn, vinnustofur, sýningar og svo framv.
Segja má að menningarlífið slái í takt við árstíðirnar en hinn langi og dimmi norðlægi vetur þjappar fólkinu saman og hvetur til hverskyns félagslífs og samvinnu af öllum toga.
Allt byrjar þetta á haustin. Þá hefja hinir fjölmörgu kórar starfsemi sína, leikfélögin dusta rykið af handritinum og stærri og smærri félagasamtök kynna starfsemi vetrarins og námskeiðahald.
Tónlistarlífið hefur löngum verið öflugt á svæðinu. Tónlistarskólar eru starfræktir í sveitarfélögunum, fjölmargir kórar eru starfandi auk þess sem fjöldi frambærilegra tónlistarmanna hefur slitið hér barnsskónum. Safnastarf er blómlegt með bókasöfnum, byggðasöfnum, náttúrusöfnum, síldarminjasafni og fl. Allir þessir staðir eru svo sannarlega lifandi uppspretta menningar og viðburða allt árið umkring. Þannig er aðstaða til menningarstarfsemi til fyrirmyndar og góð skilyrði eru fyrir varðveislu, ræktun og miðlun menningararfsins.
Þegar dregur nær jólum draga íbúar fram jólaljós og jólaskreytingar og áður en yfir líkur eru öll hús og garðar ljósum prýdd og bæir og þorp eins og skemmtigarðar yfir að líta. Um áramótin er sömuleiðis mikið um dýrðir. Á miðnætti á gamlárskvöld heldur hver og ein fjölskylda sína eigin flugeldasýningu og samanlagðar mynda þær slíkt sjónarspil að fátt fær við það jafnast.
Eftir áramótin taka við þorrablót og árshátíðir sem standa fram í febrúar. Þá gengur skíðavertíðin einnig í garð en á svæðinum eru öflug skíðasvæði kjörin til þess að njóta útiveru og stunda skíðamennsku. Svarfdælskur mars er haldinn í lok mars ár hvert. Þá fer fram heimsmeistarakeppnin í brús, haldið er málþing og dansaður svarfdælskur mars.
Vorið er jafnan mikil uppskeruhátíð fyrir kórana og eru ófáir tónleikarnir haldnir á þessum árstíma.
Sumarið gengur í garð með ýmsum hátíðarhöldum svo sem sjómannadeginum, 17. júní, Gönguvikunni, Þjóðalagahátíðinni, Trilludögum, Síldarævintýri, Fiskideginum mikla, Berjadögum og ljóðahátíðinni Haustglæðum.
Í september fara menn í berjamó og þá hefst hinn dýrðlegi tími gangna og rétta. Fjárréttir eru á nokkrum stöðum í sveitarfélögunum en þær einkennast af gleði og söng. Þegar fé hefur verið smalað í byrjun október er svo hrossasmölun og stóðrétt. Er það jafnan tilkomumikil sjón að sjá hrossastóðið rekið til réttar og hrossin dregin í dilka.
Hægt og sígandi gengur svo veturinn í garð og dagarnir styttast . Hringrás náttúrunnar hefst á nýjan leik og helst í hendur við hringrás mannlífsins
Allt árið um kring er svo hægt að sækja hina fjölmörgu viðburði sem í boði eru, kíkja í gallerí og á vinnustofur, heimsækja Berg menningarhús og menningarhúsið Tjarnarborg, skoða sýningar sem eru í boði allt árið og svo framv.
Sannkölluð menningarveisla!