Heimskautahringurinn

Í heimskautahring á Tröllaskaga!

Heimskautahringurinn svokallaði er 184 kílómetra hringleið um Tröllaskagann, milli Eyjafjarðar og og Skagafjarðar. Þessi hringleið hefur notið æ vaxandi vinsælda hjá ferðafólki eftir að Héðinsfjarðargöng komu til sögunnar, enda margt að sjá og skoða. Og líkast til eina dagleiðin hér á landi þar sem farið er í gegnum fern jarðgöng!

Hugsa má hvaða punkt sem er á þessari leið sem upphafspunkt en ef tekinn er afleggjarinn af þjóðvegi 1 norðan Akureyrar er ekið norður með Eyjafirði vestanverðum, fyrst í Hörgárveit og síðan í Dalvíkurbyggð og til Dalvíkur. Þaðan til Ólafsfjarðar og í gengum fyrstu göngin sem eru í gegnum Múlann, síðan sem leið liggur í lengri hluta Héðinsfjarðarganga yfir í Héðinsfjörð, síðan í styttri hluta ganganna til Siglufjarðar. Þaðan um Strákagöng yfir í Mánárskriður og í Fljót, þaðan með ströndinni að Hofsósi, síðan sem leið liggur inn Skagafjörð að vestanverðu, yfir Öxnadalsheiði og niður Öxnadal uns hringnum er lokað.

Náttúra, mannlíf og menning

Þetta svæði hefur upp á margt að bjóða. Sjávarbyggðarlögin eru fjölbreytt; Árskógssandur, Hauganes, Dalvík, Ólafsfjörður, Siglufjörður og Hofsós, auk þess sem stutt er að bregða sér í Hrísey og Grímsey.

Á Tröllaskaga má sjá mikilfenglegt fjallendi og ná margir fjallatindar á svæðinu yfir 1200 m yfir sjávarmál og nokkrir yfir 1400 m. Til dæmis er Kerling við Glerárdal 1538 metra há og meðal margra áhugaverðra fjalla fyrir þann stóra hóp fólks sem hefur fjallgöngur að áhugamáli. Fjölmargir smájöklar eru í fjöllum og dölum Tröllaskagans en þeirra stærstir eru Gljúfurárjökull og Tungnahryggsjökull.

Djúpir dalir skerast inn í fjallendi Tröllaskagans en þeir eru mótar af greftri vatnsfalla og svörfun skriðjökla á jökulskeiðum ísaldar. Útivistarmöguleikar á Tröllaskaganum eru gríðarmiklir en skaginn er einnig ríkur af öðrum náttúruauðlindum svo sem fjölskrúðugu fugla og plöntulífi og jarðminjum ýmiskonar. Þá er hefur verið mikill vöxtur í hvalaskoðun við Eyjafjörð og hvers kyns veitinga-, gisti- og afþreyingarþjónstu fyrir ferðamenn.