Náttúran

Náttúra TröllaskagansTröllaskaginn er eitt mikilfenglegasta fjallendi Íslands og liggur fyrir miðju norðurlandi á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Skaginn er fjöllóttur og ná margir fjallatindar yfir 1200m yfir sjávarmál og nokkrir yfir 1400m. Hæst er Kerling í Svarfaðardal (1538m). Fjölmargir smájöklar eru  í fjöllum og dölum Tröllaskagans en þeirra stærstir eru Gljúfurárjökull og Tungnahryggsjökull. Djúpir dalir skerast inn í fjallendi Tröllaskagans en þeir eru mótaðir af greftri vatnsfalla og svörfun skriðjökla á jökulskeiðum ísaldar.

Náttúrufegurð á Tröllaskaganum er mikil enda gefur þetta stórkostlega fjallendi svæðinu nánast ævintýralega blæ. Kyrrðin í fjöllunum, öldugjálfur, heiður himinn á vetrarkvöldi, norðurljós, mildur blær vorsins, bláar berjabrekkur að hausti. Allt þetta sem ekki er hægt að kaupa fyrir peninga en skilur eftir sig sanna gleði í hjartanu. Töfrandi.  

Jarðfræði Tröllaskagans

Náttúra TröllaskagansTröllaskaginn er byggður upp af misþykkum hraunlögum sem runnu á tertíertíma og eru elstu lögin á utanverðum skaganum um 11 milljón ára gömul.  Á milli hraunlaganna eru svo þunn setlög, oft rauðleit, mynduð úr jarðvegi, en stundum hvít eða grá leirsteins- eða sandsteinslög og jafnvel völuberg. Þessi setlög sér maður oft greinilega þegar gengið er um háskörð Tröllaskagans.

Á ísöld runnu meginjöklar út firðina tvo, en hliðarjöklar runnu til þeirra og grófu dali í hraunlögin. Sennilega hafa hlutar skagans staðið upp úr jöklunum á ísöld, og þar hafa plöntur lifað ísöldina af. Hvergi á Íslandi er háfjallagróður jafn fjölbreyttur og á Tröllaskaga .

Nú eru allmargir smájöklar á Tröllaskaganum, samtals um 150 ferkílómetrar, og eru stærstu jöklarnir á miðjum skaganum þar sem Barkárjökull og Tungnahryggsjökull tengjast. Allvíða eru einnig minni jöklar og grjótjöklar . Gljúfurárjökull í Skíðadal er úfnasti skriðjökull skagans.

Náttúra Tröllaskagans

Tröllaskaginn er ekki bara mikill um sig heldur einnig býsna hálendur, fjöllin víðast yfir 1.000 metra há og mjög víða ná þau 1.300 m og hæsta fjallið er yfir 1.500 m. Fjalllendið er þó ekki samfellt, heldur mjög sundurskorið af djúpum dölum sem jöklarnir grófu á síðasta jökulskeiði. Ótrúlega víða hafa öndverðir dalbotnar nánast náð saman, og á milli þeirra eru einungis hvassar eggjar. Dalirnir eru víða djúpir og fjöllin hömrótt og hrikaleg. Þegar uppá fjöllin er komið kemur það manni á óvart hve slétt þau eru að ofan, og víða er hægt að ganga eftir þessari hásléttu frá einu fjallinu yfir á annað, en sums staðar skera dalbotnar þessa samfellu, þannig að maður verður að ganga eftir hvössum eggjum eða fara niður fyrir þær til að komast á næsta fjall.

Hæst eru fjöllin umhverfis Glerárdal, sem er suður af Akureyri, en einnig eru há fjöll á milli Hörgárdals og Skíðadals svo og á milli Barkárdals og Hjaltadals. Þessi fjöll og önnur lægri eru skemmtileg áskorun fyrir útivistarmenn. Útsýni er víða stórkostlegt og er ekki hægt að velja fegursta útsýnisstaðinn.

Gönguleiðir og fjallvegir

Náttúra TröllaskagansTröllaskaginn var fyrrum mikill farartálmi á milli vestur- og austurhluta Norðurlands. Menn fundu þó fljótt þær leiðir sem stystar og lægstar voru og helst færar á milli héraðanna, Eyjafjarðar og Skagafjarðar.Margar þessara leiða eru nú aflagðar og einungis sjást þar stöku göngugarpar á ferð, eða vélsleðamenn að vetri.

Skörðin á milli héraða og byggðarlaga eru kjörin til gönguferða, enda er fjölbreytnin afar mikil, og geta menn valið sér leiðir eftir getu og tíma. Það verður hins vegar ekki sagt að fjölbreytnin sé mikil í nafngiftum á fjöllum og dölum. Enda þótt á skaganum séu mörg gullfalleg nöfn, svo sem fjallanafnið Glóðafeykir og dalsnafnið Brandi, þá eru þar ótrúlega margir Grjótárhnjúkar og Lambárdalir.

Fjallvegir um Tröllaskagann á milli héraðanna Eyjafjarðar og Skagafjarðar eru um Öxnadalsheiði, Lágheiði og um Siglufjarðarskarð, en engar jeppaslóðir eru á milli héraðanna. Sums staðar eru slóðir inn í dalina, svo sem inn í Hörgárdal, Barkárdal, Skíðadal og Kolbeinsdal, en uppúr þeim er ófært fyrir jeppa. Slóð var rudd yfir Heljardalsheiði árið 1988 í tengslum við lagningu ljósleiðara, en hún er líklega orðin ófær.

Á skaganum eru fáir skálar. Nokkrum gangnamannakofum er enn haldið við frammi í dölum.

Náttúruauðlind

Náttúra TröllaskagansTröllaskaginn hefur að mestu sloppið við ágang stórframkvæmda virkjunaraðila og línulagningamanna. Fjalllendið er raunar á náttúruminjaskrá, sem er viljayfirlýsing um að varðveita þetta svæði. Á honum er eitt friðland, í Svarfaðardal.

Skaginn er ótæmandi ánægjulind fyrir þá sem vilja njóta útiveru í hrikalegu, fjölbreytilegu, friðsælu og óspilltu landslagi, og óvíða á landinu eru meiri möguleikar til útivistar. Þarna eru djúpir og skjólsælir dalir, brött og hrikaleg fjöll, brattir og úfnir smájöklar og tignarlegar hásléttur. Menn skyldu þó ætíð fara varlega, því í landslagi Tröllaskagans eru ýmsar hættur sem menn verða að varast, þar geta fallið snjóflóð að vetri og þar geta menn lent í bröttum klettum og vélsleðamenn eru sérstaklega varaðir við því að fara ekki fram af hamrabrúnum. Þá geta veðrabrigði oft verið ótrúlega snögg, þannig að menn verða að hafa varann á. Það sem gerir þetta svæði sérlega áhugavert er að ferðamaðurinn hefur það á tilfinningunni að hann sé einn í óbyggðaheimi og sé að stíga fæti sínum á slóðir þar sem mannsfótur hefur aldrei stigið áður.

Söguslóðir

Náttúra TröllaskagansÁ Tröllaskaganum eru auðvitað margir sögustaðir í byggð, en fjalllendið geymir ekki marga sögufræga staði. Forfeður okkar áttu ekki erindi inn á hálendið nema til að komast á milli byggða eða til að leita búfjár. Allvíða eru þó til þjóðsögur eða sagnir af svaðilförum á milli héraða og sumum lyktaði hörmulega, eins og til dæmis ferð Ingimars Sigurðssonar um Héðinsskarð árið 1908 . Þá má nefna harmleikinn í Tryppaskál, en þar fórust 26 hross árið 1870, og má enn sjá beinahrúguna þar . Þá má nefna að víða eru ónefnd fjöll, hnjúkar og skörð, sem annaðhvort hafa aldrei verið nefnd, eða nöfnin hafa glatast. Unnið er að úrvinnslu og staðsetningu örnefna Eyjafjarðarmegin.

Heimildir: Bjarni E. Guðleifsson